1522 Extra Brut Rosé er meðal eftirsóttustu árgangavína sem hægt er að komast í. Það er sótt á bestu ekrur Philipponnat. Heiti vínsins vísar til ársins þegar Apvril le Philipponnat kom sér fyrst upp vínekru á svæði sem nefnist Le Léon og er mitt á milli þorpanna Ay og Dizy.
1522 Extra Brut Rosé er að mestu leyti látið gerjast á eikartunnum og öll mjólkursýrugerjun er stöðvuð. Gerir það vínið mjög kraftmikið og stórt í sniðum. Það ilmar af pipar og öðrum kryddum, er þétt og steinefnaríkt og lætur engan ósnortinn sem á því dreypir. Í blönduna er sett Pinot Noir sem alla jafna er sótt á hina mögnuðu ekru Clos des Goisses. Gefur það víninu hinn fallega bleika lit og ávaxtatóna sem eru engu líkir.