Ef það er eitthvað sem vínbændurnir í Mareuil-sur-Ay og Ay kunna að rækta þá er það Pinot Noir. Þess vegna eru Blanc de Noirs vínin úr smiðju þeirra í hópi eftirsóttustu einnarþrúgu kampavínum sem hægt er að komast í. Þetta vín er aðeins gefið út í bestu árgöngum og í það eru bestu þrúgur Pinot Noir vínviðarins valdar.
2015 árgangurinn byggir á uppskeru sem tekin var í hús þriðju vikuna í september það ár. Vorið hafði verið kalsasamt. Sumarið var hins vegar gríðarlega þurrt, það þurkamesta í áratugi í Champagne og á sama tíma dró vart ský fyrir sólu sem gerði það að verkum að það gerði mikla hita.
Það var hins vegar í byrjun septembermánaðar sem það gerði nokkrar rigningar og olli það því að vínviðurinn tók vel við sér og berin þroskuðust hratt og vel.
Þetta vín er afar þétt og tilkomumikið og þrátt fyrir kraftinn sem í því býr er það mjúkt og aðgengilegt. Sennilega besti árgangurinn Blanc de Noirs frá Philipponnat í háa herrans tíð.
Frábært eitt og sér en getur einnig þjónað sem hryggjarstykki í þriggja til fjögurra rétta máltíð þar sem ferðast er á milli fisk- og kjötmetis og kraftmikilla grænmetisrétta.